7/31/2006

Myndablogg

Myndina sendi 3548930193
Sent með Hexia.net

Myndablogg

Myndina sendi 3548930193
Sent með Hexia.net

7/28/2006

Myndablogg

Myndina sendi 3548930193
Sent með Hexia.net

Myndablogg

Myndina sendi 3548930193
Sent með Hexia.net

Myndablogg

Myndina sendi 3548930193
Sent með Hexia.net

Myndablogg

Myndina sendi 3548930193
Sent með Hexia.net

7/26/2006

Nýr tvípunktur o.fl.

Mig langar að benda á nokkur atriði sem mér finnst nokkuð áhugaverð.

Ég hef tekið eftir því á netsíðum og í sms-um sem ég hef fengið að margir eru byrjaðir að skrifa .. í stað ... — þetta er allavega það algengt að ekki getur verið um innsláttarvillur að ræða. Þannig höfum við láréttan og lóðréttan tvípunkt sem mér finnst bara svolítið flott.

Á eftir sögninni mega kemur mjög oft sögn í nafnhætti: Ég má fara. En ég þarf oft að hugsa mig um þegar mega er í nafnhætti því ég á það til að vilja setja á milli sagnanna tveggja sem eru í nafnhætti: Ég hlýt að mega fara. Ég gúglaði þetta og þetta er bara býsna algengt (ég hef ekki prófað þetta með vilja).

Á eftir so. vilja kemur sömuleiðis mjög oft sögn í nafnhætti: Ég vil geta þetta. Þegar geta fer á eftir vilja í lh.þt. set ég geta líka oft í lh.þt.: Ég hefði viljað getað þetta. Þetta er líka nokkuð algengt sé mark takandi á gúglun minni.

7/25/2006

Kannist þið við Þig og mig?

Hljómsveitin Þú og ég var aldeilis vinsæl hér á árum áður og er óhætt að segja að tónlist þeirra sé stuðtónlist á hæsta stigi. Lagið þeirra, Þú og ég, hefur hljómað oft að undanförnu í tengslum við auglýsingu frá fyrirtæki einu. En þá spyr ég, hafið þið hlustað á Þig og mig? Eða segir maður: Hafið þið hlustað á Þú og ég? Fer maður ekki á ball með Pöpunum eða á tónleika með Ælu? Er ekki pínu skrýtið að fara á ball með Þér og mér? Og eru Þú og ég ekki smart...?


Þú og ég eru alltaf smart!

Við

7/23/2006

Gúmmítöffarar sem "rústa íbúðina"

Mig langar að benda á pistil Sigurðar Pálma í sjónvarpsdagskrárhluta Morgunblaðsins í dag. Þetta er mjög fyndin umfjöllun um Supernova kallana. Hann talar líka um að þeir myndu "rústa íbúðina". Var ekki svona setning í tilbrigðakönnuninni?

7/22/2006

Þjóðhátíðarlagið 2006

Á dalurinn.is birtist eftirfarandi frétt:

Þjóðhátíðarlagið frumflutt á Bylgjunni kl: 11.00 í fyrramálið

Það fer í loftið klukkan 11.00 í fyrramálið þjóðhátíðarlagið 2006. Lagið heitir "Ástfangin í þér" og er lag og texti eftir Magnús Eiríksson. Flytjandi er ung söngkona sem heitir Hrund Ósk. Útsetningin er eftir Mattías Stefánsson fiðlusnilling, einnig kom Magnús Eiríksson að útsetningunni.


Af hverju er þetta "ástfangin í þér" í stað "ástfangin af þér"? Svo er fyrsta setningin fyndin líka.

Hvað segið þið um þetta?

7/20/2006

Gætum Gætum tungunnar

Lítill dálkur sem kallast Gætum tungunnar birtist reglulega í Mogganum um þessar mundir. Dálkurinn er oft fróðlegur en athugasemdirnar, sem gerðar eru við mál manna, eiga það oft til að vera dálítið smásmugulegar. Ég hef oftast tekið eftir dæmum eins og:

Sagt var: Tvíburarnir voru góðir við hvorn annan.
RÉTT VÆRI: Tvíburarnir voru góðir hvor við annan.

Í dag er einmitt svipað uppi á teningnum:

Sagt var: Gætum þess í samskiptum okkar hvert við annað.
RÉTT VÆRI: ... í samskiptum okkar hvers við annað.

Helsti ókosturinn við Gætum tungunnar er að það er sjaldnast útskýrt hvers vegna eitthvað er verra en annað. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er sú að ég tel það sem „rétt væri“ vera rangt í athugasemdum dagsins í dag og það sem „sagt var“ rétt (hér er miðað við aldagamla málhefð og nýlegar málbreytingar EKKI viðurkenndar í samræmi við það sem dálkurinn virðist gera).

Eins og ég skil „hvor/hver annars“-setningar vísar hvor/hver til frumlags setningarinnar en annar er andlag:

Allar stelpurnar(nf.) gáfu hver(nf.) annarri jólagjöf.
Tvíburana(þf.) dreymdi hvorn(þf.) annan í nótt.
Börnunum(þgf.) leist illa hvoru/hverju(þgf.) á annað.

Í Moggadæminu að ofan held ég að hver eigi að vísa til við sem er undanskilið vegna boðháttarins gætum.

Sem sagt:

Sagt var í Mogganum 20. júlí: Gætum þess í samskiptum okkar hvers við annað.
Ég tel að RÉTT VÆRI: ... í samskiptum okkar hvert við annað.

7/14/2006

Skrönglast inn í helgina

Merkilegt hvað eru margar st-sagnir sem merka að „silast“, „drattast“ eða eitthvað slíkt. Þar má nefna sagnir eins og skrælast, skreiðast, skreflast, skraglast, agðast, akkast, dofrast, draglast, dragnast, drittast, dróglast, druslast, dröslast, skælast, slækjast, skrönglast og svo allar sagnirnar sem ég á eftir að skoða auðvitað. Hver skyldi vera ástæðan fyrir þessu? Eru Íslendingar þekktir fyrir að drattast úr sporunum frekar en að bera sig glæsilega eða er þetta tilviljun?

7/11/2006

Góðan!

Mér finnst spánverjar klikk!

Þeir stytta orð og orðsambönd á undarlegan hátt (svona allavega ef maður þýðir þetta á íslensku).

Til dæmis segja þeir oft bara buenos! í staðinn fyrir buenos días. Það er svona eins og við myndum segja bara góðan! í staðinn fyrir góðan daginn. Svo geta þeir meira að segja sagt muy buenos! Ímyndið ykkur að maður labbaði inn í búð og segði bara Mjög góðan!

Helgi er kölluð fin de semana (lok á viku). Þetta stytta þeir gjarnan og segja finde. Það var ég mjög lengi að samþykkja, það er svo ótrúlega ógrammatískt eitthvað. Que vas a hacer el proximo finde? Ha, loká? Hvað er loká?

Styttingin á por favor er svipuð eða asnalegri: porfa.

Það er sem ég segi. Spánverjar eru klikk.

7/07/2006

Af nördafræði/-um

Ég hef verið að velta fyrir mér orðinu nörd. Ég hef á tilfinningunni að í eintölu noti margir orðið í hvorugkyni en í fleirtölu í karlkyni. Mjög óvísindaleg könnun á google styður þetta.

Leitarstrengurinn "geðveikt nörd" (þ.e. hk.et.) gefur 13 niðurstöður en "geðveikur nörd" (kk.et.) aðeins 3. Google finnur enga síðu með "geðveik nörd" (hk.ft.) en með leitarstrengnum "geðveikir nördar" (kk.ft.) fást 10 niðurstöður.

Þetta finnst mér dálítið merkilegt því ég man ekki eftir neinu öðru orði en fræði sem skiptir um kyn eftir tölu.

7/06/2006

Tískuorð

Úpsí, ég aftur... Þið vonandi fyrirgefið hvað ég er athyglissjúk núna ;)


Uppáhalds nýyrði fræðimanna í hinum ýmsu greinum eru: þverfaglegt, tengslanet, lausnaleit og tímastjórnun.

Ég hef verið að hugsa um þessi orð og hvernig þau tengjast.

Þverfaglegt er orð sem er mikið notað en fáir virðast skilja (a.m.k. þeir sem eru ekki í beinum tengslum við menntastofnanir/fræðimenn). Ég gerði óformlega könnun og fólk virðist ekki skilja merkinguna út frá orðinu einu saman. Ég heyrði um daginn útvarpsmann á FM957 tala um þetta og hann kom með ýmsar uppástungur um merkinguna en hitti ekki á réttu. Skv. orðabókinni er þverfaglegt eitthvað sem fer þvert á fræðigreinar t.d. samvinna fólks í hinum ýmsu fræðigreinum.

Þetta tengist svo aftur tengslaneti sem er svo mikið í tísku núna (net hinna ýmsu tengsla sem gott er að grípa til). Allir þurfa að vera með allar klær úti og þekkja sem flesta til að komast áfram. Sigríður Snævarr, sendiherra hélt fyrir stuttu fyrirlestur um tengslanet og hvernig best sé að byggja það upp. Hún benti á ýmsar leiðir til þess og kom með ágætar uppástungur hvernig á að kynnast fólki og halda sambandi við það. Hún talaði líka um að það vantaði tengslanet á Internetið, ég er að hugsa um að skrifa henni bréf og benda á myspace.com *híhí*.

Lausnaleitin (t.d. lausnaleitarnám pbl.is) byggir líka á þessu, til að finna lausnina þarf að leita sér upplýsinga og oft hjá þeim sem eru í tengslanetinu.

Tímastjórnun er nauðsynleg í lausnaleitinni, það má ekki fara of mikill tími í smáatriði. Það er annað mál hvort að fólk geti haft fullkomna stjórn yfir tímanum, það er kannski ekki hægt nema maður hafi hæfileika eins og stelpan sem setti saman fingurna til að stoppa tíman eða Adam Sandler í Click.

Mér dettur í hug tímastjórnunaraðferð eins íslenskukennara sem ég var með. Hann sagði okkur í byrjun annarinnar að hann myndi einungis lesa upp fyrsta nafn hvers og eins, þannig myndi hann spara a.m.k. heilan klukkutíma yfir önnina ;)

Málfræðinöldur

Mig langar að gera athugasemd við orðið „fótavinna“ sem íþróttaþulir hjá Sýn nota óspart.

Af hverju tala þeir ekki um „fótafimi“ eða „fótafærni“ eða jafnvel „fótatækni“? Þetta er mjög skrýtið orð. Ég hef t.d. aldrei heyrt um „handavinnu“ hjá handboltaköppum. Það væri kannski gaman að sjá „handavinnuna“ hjá þeim, risastórar hendur og útstæðar kjúkur að prjóna eða hekla...

Þulirnir eru líka alltaf að segja: „Það þarf að koma boltanum í fæturnar á honum“. Þetta gæti gengið í handbolta þar sem handboltinn fer í hendurnar en í fæturnar, nei mér finnst það ekki ganga upp. Er ekki hægt að tala um að „gefa á manninn“ eða eitthvað slíkt?

Það var líka mjög athyglisvert að heyra einn þulinn segja að leikmennirnir væru „bornir yfirliði“.