7/14/2006

Skrönglast inn í helgina

Merkilegt hvað eru margar st-sagnir sem merka að „silast“, „drattast“ eða eitthvað slíkt. Þar má nefna sagnir eins og skrælast, skreiðast, skreflast, skraglast, agðast, akkast, dofrast, draglast, dragnast, drittast, dróglast, druslast, dröslast, skælast, slækjast, skrönglast og svo allar sagnirnar sem ég á eftir að skoða auðvitað. Hver skyldi vera ástæðan fyrir þessu? Eru Íslendingar þekktir fyrir að drattast úr sporunum frekar en að bera sig glæsilega eða er þetta tilviljun?

3 Comments:

At 14 júlí, 2006 11:34, Anonymous Nafnlaus said...

Merkilegt! Sumar þessara sagna eru gersamlega óskiljanlegar... hvað er t.d. að dofrast??

 
At 14 júlí, 2006 11:42, Blogger Valdís said...

Dofrast áfram þýðir t.d. að dragnast áfram! Að dofrast er að lyppast niður. Algjörar aumingjasagnir!

 
At 14 júlí, 2006 13:04, Blogger Freysier said...

Það er oft eitthvað letingjalegt við -st-sagnir sem hefur örugglega eitthvað með merkingarhlutverk að gera. Sá sem t.d. rolast áfram virðist ekki gera það vegna þess að hann ákveður það heldur gerir hann það bara en það er öfugt í tilviki þess sem drífur sig eða haskar/hraðar/flýtir sér (svo er nú líka hægt að fara sér hægt...). Sá sem lyppast niður getur örugglega ekki annað.

Annars finnst mér dróglast flottasta sögnin.

 

Skrifa ummæli

<< Home