7/25/2006

Kannist þið við Þig og mig?

Hljómsveitin Þú og ég var aldeilis vinsæl hér á árum áður og er óhætt að segja að tónlist þeirra sé stuðtónlist á hæsta stigi. Lagið þeirra, Þú og ég, hefur hljómað oft að undanförnu í tengslum við auglýsingu frá fyrirtæki einu. En þá spyr ég, hafið þið hlustað á Þig og mig? Eða segir maður: Hafið þið hlustað á Þú og ég? Fer maður ekki á ball með Pöpunum eða á tónleika með Ælu? Er ekki pínu skrýtið að fara á ball með Þér og mér? Og eru Þú og ég ekki smart...?


Þú og ég eru alltaf smart!

Við

4 Comments:

At 25 júlí, 2006 13:08, Anonymous Nafnlaus said...

*Híhíhí* Skemmtileg pæling!!! :D

 
At 25 júlí, 2006 13:09, Blogger Freysier said...

Já, þetta er nú góð spurning. Um það leyti sem Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent síðast var hljómsveitin Ég, sem syngur m.a. um Eið Smára og á Plötu ársins, svolítið í sviðsljósinu og þá fallbeygðu allir nafnið. Þetta var orðinn frekar þreyttur brandari undir lokin þegar allir sem kynntu hljómsveitina í sjónvarpi og útvarpi komu með sama brandarann: „Og nú fáum við að heyra lagið Eiður Smári Guðjohnsen með mér.“

Ég hef nú stundum velt því fyrir mér hversu langt megi ganga í svona. Það hefði t.d. varla verið hægt að segja: „Og nú ætla Ég að flytja lagið...“ eða „Erum Þú og ég ekki smart?“

Og svo eitt enn um beygingu. Yfirleitt talar fólk um lagið Eiður Smári Guðjohnsen en ekki um lagið Eið Smára Guðjohnsen, þ.e. „lagið“ tekur einhvern veginn á sig alla beyginguna. Við Sigrún hittum um daginn konu í Odda sem talaði um að ritsjóri á Bleiku og bláu hefði á sínum tíma kennt starfsfólki sínu að beygja nafn blaðsins, en það var víst svona:

nf. Bleikt og blátt
þf. Bleikt og blátt
þgf. Bleiku og bláu
ef. Tímaritsins Bleikt og blátt

Honum mun hafa þótt ef. Bleiks og blás hljóma illa.

 
At 25 júlí, 2006 13:28, Blogger Valdís said...

Haha, flott eignarfall þarna. En eru ekki einmitt stjórnendur sumra fyrirtækja sem vilja ekki að nafn fyrirtækisins sé beygt, þó að það sé íslenskt? Ég held að ég hafi heyrt það með Lyf og heilsu þar sem fyrri liðurinn er sjaldnast beygður.

 
At 26 júlí, 2006 09:40, Blogger Freysier said...

Svo ég haldi nú áfram að vitna í þessa konu þá kvartaði hún undan auglýsingum frá Hollt og gott/Hollu og góðu.

 

Skrifa ummæli

<< Home