7/20/2006

Gætum Gætum tungunnar

Lítill dálkur sem kallast Gætum tungunnar birtist reglulega í Mogganum um þessar mundir. Dálkurinn er oft fróðlegur en athugasemdirnar, sem gerðar eru við mál manna, eiga það oft til að vera dálítið smásmugulegar. Ég hef oftast tekið eftir dæmum eins og:

Sagt var: Tvíburarnir voru góðir við hvorn annan.
RÉTT VÆRI: Tvíburarnir voru góðir hvor við annan.

Í dag er einmitt svipað uppi á teningnum:

Sagt var: Gætum þess í samskiptum okkar hvert við annað.
RÉTT VÆRI: ... í samskiptum okkar hvers við annað.

Helsti ókosturinn við Gætum tungunnar er að það er sjaldnast útskýrt hvers vegna eitthvað er verra en annað. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er sú að ég tel það sem „rétt væri“ vera rangt í athugasemdum dagsins í dag og það sem „sagt var“ rétt (hér er miðað við aldagamla málhefð og nýlegar málbreytingar EKKI viðurkenndar í samræmi við það sem dálkurinn virðist gera).

Eins og ég skil „hvor/hver annars“-setningar vísar hvor/hver til frumlags setningarinnar en annar er andlag:

Allar stelpurnar(nf.) gáfu hver(nf.) annarri jólagjöf.
Tvíburana(þf.) dreymdi hvorn(þf.) annan í nótt.
Börnunum(þgf.) leist illa hvoru/hverju(þgf.) á annað.

Í Moggadæminu að ofan held ég að hver eigi að vísa til við sem er undanskilið vegna boðháttarins gætum.

Sem sagt:

Sagt var í Mogganum 20. júlí: Gætum þess í samskiptum okkar hvers við annað.
Ég tel að RÉTT VÆRI: ... í samskiptum okkar hvert við annað.

3 Comments:

At 20 júlí, 2006 21:24, Anonymous Nafnlaus said...

Ég er sammála :D

 
At 21 júlí, 2006 09:19, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er mjög góður punktur, þetta er einmitt ekki svona -svart eða hvítt-, ekki alltaf hægt að segja af eða á.

 
At 21 júlí, 2006 10:03, Blogger Valdís said...

Sammála síðasta ræðumanni.

 

Skrifa ummæli

<< Home