8/28/2006

Er e-ð að skest?

Miðmynd er í tísku í dag. Það hefur mér orðið ljóst af því að leita að sögnum í miðmynd með Google. Unga fólkið virðist nota miðmynd töluvert um sagnir leiddar af nafnorðum. Þannig getur sögnin strandast merkt að fara á ströndina og axlast að sitja á öxlum einhvers. Aðrar sagnir geta verið afbakanir úr ensku. Þannig merkir sníkjast út að laumast út (e. sneak out) og messast við e-n að abbast upp á e-n (e. mess with someone). Sumir virðast ekki kunna sagnir eins og frjósa og blotna en nota frystast og bleytast. Fjölmörg dæmi voru um að miðmynd væri notuð í þolmyndarmerkingu þar sem ekki er hefð fyrir því. Kitlast eða láta kitlast er notað um að vera kitlaður, egg linsjóðast í stað þess að verða linsoðin o.s.frv. Langoftast er þó skeytt -st aftan við sagnir án þess að merkingin breytist nokkuð, passast þýðir þannig að passa (börn), hlutir springast í stað þess að springa, kraumast í stað þess að kraumast og besta dæmið sem ég fann var þegar talað var um að „ekkert væri að skest!“

1 Comments:

At 28 ágúst, 2006 17:01, Anonymous Nafnlaus said...

Já og búðast og lúllast og tölvast :D Kemur oft fyrir á bloggsíðum.

Mér finnst þetta "skest" rosalega skrýtið! Það virðist vera hægt að segja "voðalega lítið búið að vera að skest". Er þetta eitthvað -st viðhengi frá gerast þ.e. ske + (gera)st.

Góð grein Valdís ;D

 

Skrifa ummæli

<< Home