6/04/2007

Michael (sem nú er í Tilbrigðaverkefninu) og Rósa Marta héldu fyrirlestur á málþingi M.A.-nema í námskeiðinu Tilbrigði í setningagerð í desember síðastliðnum sem bar heitið: „Ég er aldrei búinn að nota búinn að.“ Er hjálparsögnin hafa í útrýmingarhættu? Þar fjölluðu þau um aukna notkun vera + búinn að á kostnað hafa + lh.þt. (sbr. dæmi eins og Ég er aldrei búinn að sjá þessa mynd þar sem flestum þætti líklega eðlilegast að segja Ég hef aldrei séð þessa mynd).

Ég nota búinn að mjög mikið og hafði kannski þess vegna lítið pælt í þessari notkun áður en ég hlustaði á fyrirlesturinn. Því fannst mér svolítið athyglisvert að ég heyrði a.m.k. einu sinni (ég hlustaði ekki nógu grannt eftir þessu) á síðasta kosningakvöldi formann einhverrar kjörstjórnar segja: „Nú er búið að telja X atkvæði ...“ Oftast var þó sagt: „Talin hafa verið X atkvæði ...“

Þetta fannst mér merkilegt þar sem þeir sem tilkynna nýjustu tölur í kosningum til Alþingins lesa þær upp af blaði og reyna væntanlega að vanda mál sitt (og þetta búinn að þykir örugglega ekkert sérstaklega vandað) enda bíður þjóðin með öndina í hálsinum; sumir hlusta eftir úrslitunum, aðrir eftir einhverju allt öðru.

1 Comments:

At 04 júní, 2007 15:53, Blogger Heimir Freyr said...

Já, þetta er alveg stórmerkilegt. Ég hafði heyrt af þessu áður en aldrei pælt sérstaklega í því hvort fólk notaði þetta mikið, eiginlega af því að mér finnst sjálfum sáralítið athugavert við búinn að í þessu samhengi. Núna staldra ég alltaf aðeins við þegar ég læt svonalagað út úr mér og velti fyrir mér hvers vegna ég notaði ekki 'hafa'. Mér finnst munurinn einmitt vera tengdur málsniði eins og þú nefnir, formlegt - óformlegt. En ef það er þannig, þá er sennilega ekki neinn merkingarmunur lengur á „ertu búinn að lesa Egils sögu?“ (=e-ð sem sumir gera kannski bara einu sinni, svo er því lokið, af því að þeir áttu að gera það); andspænis því að hafa bara gert eitthvað óháð ástæðu, ásetningi, forskilyrði...

 

Skrifa ummæli

<< Home